Lítið smíðakver

samið hefur Pjétur Pjétursson (1886).

Um höfundinn

Pétur Jökull Pétursson fæddist á Hákonarstöðum á Jökuldal

28. okt. 1828. Foreldrar hans voru Pétur Pétursson og Ingibjörg Pálsdóttir.

Pétur var bráðþroska og snemma bar á óvenjulegu hugviti hans og gáfum einkum er laut að smíði, myndgerð eða dráttlist. Fyrsta smíðisgripinn gerði hann á þrettánda ári en það var lóðavog. Hins vegar varð honum ráðafátt þegar kom að því að merkja hana. Fékk hann þá vin sinn og nágranna Snorra Guðmundsson í Klausturseli sér til hjálpar og vannst verkið þá fljótt og vel.

Litla menntun hlaut hann í föðurhúsum aðra en að lesa lærdómskverið og lítilsháttar að draga til stafs. Þegar hann var á sautjánda ári bað hann föður sinn sem var stórríkur um fararefni til siglinga og kvaðst vilja læra að smíða eða mennta sig á annan hátt. En ekki var við það komandi. Eftir þessa neitun ákvað hann að reyna að mennta sig sjálfur. Ferðaðist hann á milli smiða og aflaði sér allrar þeirrar þekkingar sem mögulegt var að fá. Vann við smíðar heima og lagði gjörva hönd á margt og var duglegur og eftirsóttur til vinnu.

Pétur varð snemma listaskrifari og iðulega fenginn til að kenna börnum að draga til stafs og mjög áhugasamur um að kenna unglingum það sem þeir vildu læra.

Hákonarstaðamenn höfðu undir höndum Galdrabók séra Einars á Skinnastað. Þegar Pétur var á 18. ári notaði hann hverja stund um veturinn og afritaði Galdrabókina sem er 377 bls. og lauk því verki um páska.

Pétur eignaðist barn, Sigfús fæddan 23.febrúar 1848 með vinnukonu sem var á Hákonarstöðum. Barnsmóðir hans hét Oddný Sigurðardóttir. Sigfús Pétursson ólst upp á Hákonarstöðum og síðar hjá Sigfinni föðurbróður sínum. Sigfús lést 15. september 1870. Oddný átti síðar barn með Vigfúsi bróður Péturs Jökuls.

Árið 1851 kvæntist hann Guðrúnu Jónsdóttur frá Haugsstöðum á Jökuldal. Þau bjuggu á Hákonarstöðum næstu 10 árin og fékkst Pétur við smíðar samhliða búskapnum. Þá slitu þau samvistir og flutti Guðrún með Pétur son þeirra í Haugsstaði.

Mikill aldursmunur var á þeim Pétri og Guðnýju og var Guðný 15 árum eldri en Pétur.

Pétur stundaði áfram smíðar og fór víða um Austurland og var alls staðar kærkominn gestur því víða var nóg af verkefnum handa honum sem aðrir gátu ekki unnið.

Pétur skrifaði mikið og var í bréfaskriftum við menn víða um land, og var þá að leita ýmissa uppplýsinga.

Smíðakver þetta samdi Pétur og gaf út á Akureyri 1868

Má nærri geta að það hefur verið þarft verk því á þeim tíma var svo til ómögulegt að fá tilsögn í smíðum hér á landi.

Pétur fluttist til Vesturheims. Þar kvæntist hann Sigríði Vigfúsdóttur. Það hjónaband stóð ekki lengi.

Pétur hefur löngum verið þjóðsagnapersóna á Jökuldal þótti dverghagur, jafnvel göldróttur og mikill vaskleikamaður. Gekk um með hamar og meitil og víða sjást enn þá ártöl og jafnvel stafir í steinum á Jökuldal ef eftir er leitað.

Pétur lést Vestanhafs í lok nítjándu aldar en heimildum um dánarár hans ber ekki saman.

Lýsing er til af Pétri í V. árg. Óðins, 6. tbl.

"Hann var mikill maður á velli, 71 þumlungur á hæð,beinvaxinn,
herðamikill, höfuðstór, brúnamikill, hvasseygur og hörkulegur,
einarður og enginn veifiskati í skoðunum,snar í öllum hreyfingum,
glímumaður góður, snyrtimenni í klæðaburði og sópaði mjög að manninum.
Gleðimaður mikill og mátti sannast á honum máltækið:
"Það var dauður maður, sem ekki gat hlegið," þegar hann beitti sér.
Ekki þótti hann hófsmaður til víns og ásta."

Akureyri á haustnóttum 2003
Jenný Karlsdóttir

Lítið smíðakver

eftir Jón Bernharðsson

Um höfundinn

Jón Bernharðsson fæddist 4. júlí 1822 að Skógsnesi í Gaulverjabæjarhreppi.

Jón útskrifaðist gullsmíðasveinn af Jóni Arngrímssyni Gullsmíða-meistara í Kaupmannahöfn 29. apríl 1850. Sveinsstykki hans var súpuskeið. Jón kom frá námi 1851 og settist að í Reykjavík.

Hann fékk borgararéttindi 10. nóv. 1852 en varð gjaldþrota sennilega vegna húsakaupa og mun þá hafa flust að Laxnesi í Mosfellssveit.

Kona Jóns var Margrét Bjarnadóttir bónda í Reykjadalskoti í Hrunamannahreppi.

Jón dó 24.mars 1877 í Víðinesi og þá kallaður bóndi þar.

Eftir Jón eru þekktir nokkrir skúfhólkar í einkaeign og á söfnum. Einnig er líklega eftir hann teskeið í Byggðasafni Snæfells og Hnappdæla. Í Hrunakirkju eru þjónustukaleikur og patína eftir Jón. Hann mun hafa haft stimpilinn J. B.

Jón samdi "Lítið smíðakver" sem Bjarni sonur hans gaf út og var prentað í Ísafoldarprentsmiðju 1887.

Akureyri í ágúst 2004
Jenný Karlsdóttir.