Elsta íslenska hannyrðabókin.

Leiðarvísir til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir

(Reykjavík 1886) Eftir Þóru Pjetursdóttur, Jarþrúði Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur

Formáli

Árið 1886 kom út fyrsta íslenska hannyrðabókin.

Þrjár merkiskonur stóðu að útgáfu þessari. Þær voru: Þóra Pétursdóttir Thoroddsen (1848-1917), Jarðþrúður Jónsdóttir (1851-1924) og Þóra Jónsdóttir Magnússonar (1858-1947). Allar voru þær mjög vel menntaðar að þeirrar tíðar hætti. Höfðu allar dvalið og menntast erlendis og þannig víkkað sjóndeildarhring sinn, auk þess sem þær komu frá einhverjum mestu menningarheimilum sem þá fyrirfundust hér á landi. Þær giftust mektarmönnum og voru húsfreyjur á umsvifamiklum heimilum. Það er til að halda minningu þessara brautryðjenda á lofti og áhuga þeirra á handverki, að ég ræðst í endurútgáfu á þessari hannyrðabók.

Ég tel að okkur Íslendingum beri skylda til að varðveita þá menningararfleifð sem við höfum þegið og skila þeim arfi í hendur komandi kynslóða.

Kennslubók í öllum fínu góðu aðferðunum, svo sem knippli, orkeringu, hvítsaumsgerðum o.fl.

Leiðarvísir til að nema ýmsar hannyrðir og fatasaum

(Reykjavík 1928) Eftir Elísabetu Valdimarsdóttur.

Formáli

Elísabet Ingveldur Valdimarsdóttir fæddist í Hnífsdal 26. febrúar 1890 og lést 7. júlí 1973 í Reykjavík.

Hún fór ung til Danmerkur á hannyrðaskóla sem rekinn var af Den danske Kunstflidsforening. Þarna lærði hún ýmis konar hannyrðir sem og fatasaum. Heim komin settist hún að á Ísafirði og tók að halda námskeið fyrir konur. Kenndi hún þar ýmsar hannyrðalistir, en einkum kenndi hún konum allt er laut að gerð íslensku kvenbúninganna, bæði að baldyra og upphlutsborða, knipla, orkéra og vinna allt er tilheyrði búningagerðinni. Námskeið þessi voru afar vinsæl og voru frá sjö og upp í fjórtán konur á hverju námskeiði. Síðar fluttist Elísabet til Reykjavíkur og setti upp fatahreinsun á Vesturgötu. Eftir stríð keypti hún bakhúsið að Laugavegi 47 ásamt Jónu Helgu tvíburasystur sinni. Þar ráku þær fataviðgerðir í kjallara hússins og tóku meðal annars að sér að kúnststoppa.

Ég ræðst nú í að endurútgefa bók þessa sem fyrst og fremst er kennslubók í fjölbreyttum hannyrðum en hún hefur verið ófáanleg um langt árabil.